(Þessi grein er hugsuð sem fræðandi innlegg fyrir þær mæður sem gefa brjóst og vilja skilja betur hvernig heilsa þeirra getur stutt það ferli. Við áttum okkur þó vel á því að brjóstagjöf er ekki alltaf möguleg eða val allra foreldra. Við berum virðingu fyrir öllum þeim fjölbreyttu leiðum sem foreldrar velja að næra börnin sín með kærleika og ábyrgð).
Í tilefni Alþjóðlegrar brjóstagjafaviku langar okkur hjá Jörth að beina athyglinni að tengslunum milli meltingarheilbrigðis móður og næringargildi brjóstamjólkur (þar sem það á við).
Þarmaflóra móður hefur víðtæk áhrif – ekki aðeins á hennar eigin líðan og heilsu, heldur einnig á líðan og heilsu barnsins.
Þarmaflóran mótar fyrstu næringuna
Rannsóknir sýna að heilbrigð og fjölbreytt þarmaflóra móður hefur áhrif á upptöku og nýtingu næringarefna í líkama hennar, sem getur síðan haft áhrif á samsetningu og gæði brjóstamjólkur.
Mikilvægur þáttur í þessu samhengi eru fásykrur (e. human milk oligosaccharides, HMOs) – náttúrulegar sykrur sem virka sem fyrstu forgerlar (e. prebiotics) barnsins. Þær fara beint í þarma barnsins þar sem þær stuðla að mótun heilbrigðrar þarmaflóru, styðja við heilbrigða meltingu ásamt því að styrkja og efla ónæmiskerfið.
Heilbrigð þarmaflóra stuðlar að betri næringu fyrir bæði móður og barn
Heilbrigð þarmaflóra getur haft jákvæð áhrif á næringargildi brjóstamjólkur, þar sem hún gegnir lykilhlutverki í upptöku og nýtingu nauðsynlegra næringarefna í líkama móður. Þetta getur skipt miklu máli fyrir stöðuga mjólkurframleiðslu og almenna líðan á þessu viðkvæma tímabili.
Þá hefur þarmaflóran einnig áhrif á seytingu taugaboðefna sem tengjast streitustjórnun, sem getur haft áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu móður á fyrstu vikum eftir fæðingu.
Heilsa í forgangi – viska menningarheima
Í mörgum menningarheimum hefur það löngum verið viðurkennt að heilsa og næring nýbakaðrar móður sé hornsteinn bæði fyrir hennar eigin bata og vöxt og þroska barnsins. Þar er oft lögð sérstök áhersla á hollan mat, hvíld, stuðning samfélagsins og jurtir eða fæðubótarefni fyrstu vikur og mánuði eftir fæðingu.
Nýlegar rannsóknir sýna að þessi aldagamla viska á sér stoð í vísindum – þar sem aðhlynning, góð næring og félagslegur stuðningur hafa bein áhrif á hormónaflæði, ónæmisviðbrögð og tengslamyndun.
Jafnvægi sem styður bæði móður og barn
Við hjá Jörth trúum því að vellíðan móður byggi á heildrænni nálgun. Þegar við nærum þarmaflóruna og græðum meltingarveginn styðjum við ekki aðeins við eigið jafnvægi heldur einnig við getu okkar til að mæta þörfum barnsins, hvort sem næringin kemur úr brjóstamjólk eða eftir öðrum leiðum. Ferðalagið að því að næra tvo hefst á því að næra sjálfa sig – á þann hátt sem hentar hverri og einni.