Gegndræpi þarmanna
Gegndræpi þarma er hugtak sem lýsir hvernig flutningi á ýmsum þáttum úr meltingarvegi út í líkamann er stýrt. Þarmarnir frásoga næringarefni en á sama tíma koma þeir í veg fyrir að skaðleg efni berist úr þörmunum og út í líkamann. Í heilbrigðum þörmum geta litlar agnir komist í gegnum millifrumutengi sem geta gliðnað og haldist opin við ákveðin skilyrði en þetta ferli er eðlilegt og veldur ekki vandamálum í flestum tilfellum.
Útþekjan, innsta lag þarmanna, er mynduð úr þekjufrumulagi sem aðskilur innihald þarma frá líkamanum. Þessi útþekja er umfangsmesta og mikilvægasta slímhúð líkamans. Einnig getur ákveðið efni sem nefnist músín og er hluti af slími í þörmum varið okkur gegn sýklum og öðrum þáttum sem geta ógnað heilsu okkar.
Útþekjan er samsett úr einu lagi frumna og þjónar tveimur mikilvægum hlutverkum. Í fyrsta lagi virkar hún sem hindrun og kemur í veg fyrir að skaðleg efni eins og mótefnavakar, eiturefni og örverur berist frá meltingarvegi út í líkamann.
Í öðru lagi virkar hún sem sértæk sía sem auðveldar uppsog næringarefna, salta, vatns og ýmissa annarra gagnlegra efna úr þörmunum. Sértækt gegndræpi á sér stað annað hvort milli þekjufrumna eða af frumunum sjálfum. Þannig fara sölt, amínósýrur, sykrur, stuttkeðju fitusýrur ásamt öðrum sameindum inn í eða út úr frumunni. Rannsóknir sýna að riðlun á millifrumutengjum getur stuðlað að þróun á bólgusjúkdómum í þörmum og mögulega annarra langvinnra sjúkdóma víðar í líkamanum.
Þegar gegndræpi þarmanna hættir að vera sértækt og eykst umfram það sem eðlilegt er, þ.e. millifrumutengin eru rofin of oft og of lengi í senn, geta ýmis vandamál fylgt í kjölfarið. Veirusýkingar í görnum auka gegndæpið tímabundið. Það getur greitt leið óæskilegra þátta (t.d. ofnæmisvaka eða sýkla) inn í líkamann sem geta valdið ýmsum vandamálum, eins og til dæmis ofnæmi. Rannsóknir hafa leitt í ljós að einstaklingar með bólgusjúkdóma í þrömum s.s. Crohns-sjúkdóm eða sáraristil, eða sjálfsofnæmissjúkdóm eins og sílíak eða sykursýki af týpu eitt eru með krónískt aukið gegndræpi í þrörmum. Þessi sami sjúklingahópur greinist gjarnan með riðlaða þarmaflóru (e. dysbiosis). Ekki er vitað hvort kemur á undan, aukið gegndræpi eða riðluð flóra, en rannsóknir sýna að góðgerlar hafa jákvæð áhrif til að efla hagsæða samsetningu þarmaflóru og leiðrétta þannig riðlaða flóru.
Heilbrigð þarmaflóra stuðlar að heilbrigðu ónæmisþoli (e. tolerance) í meltingarvegi með því að efla staðbundna framleiðslu IgA-mótefna og getur þannig stuðlað að myndun ónæmisþols gegn prótínum í fæðu, sem gefur ónæmisfræðilega vörn.
SAMANTEKT
Gegndræpi þarma er hugtak sem lýsir hvernig flutningi á ýmsum þáttum úr meltingarvegi út í líkamann er háttað. Útþekjan er samsett úr einu lagi frumna og þjónar tveimur mikilvægum hlutverkum, sem hindrun og kemur í veg fyrir að skaðleg efni berist út í líkamann og sem sértæk sía sem auðveldar uppsog næringarefna úr þörmunum. Aukið gegndræpi sem er viðvarandi ásamt riðlaðri þarmaflóru er þekkt í ýmsum bólgu- og sjálfsofnæmissjúkdómum en getur einnig leitt til ýmissa annarra kvilla, til dæmis ofnæmis. Góðgerlar koma jafnvægi á þarmaflóruna sem eflir ónæmisfræðilega vörn.