Heim / Vísindi / Trefjaefni

Örverunæring

Gerlafæði (e. prebiotics) er skilgreint sem gerjanlegt innihaldsefni í ákveðnum fæðutegundum eða fæðubótarefnum. Það gagnast meltingarfærum okkar og eflir almenna heilsu því það stuðlar að ákveðnum breytingum á samsetningu og/eða virkni þarmaflórunnar. Gerlafæði samanstendur að mestu af fjölsykrum án sterkju og fásykrum, en við hvorki brjótum þessi efni niður né frásogum, nema að hluta til.

Þessar fjölsykrur og fásykrur stuðla að vexti hagstæðra baktería, svo sem Bífídóbaktería og Laktóbasillus. Gerlafæði er að finna í jurtafæðu og mjólkurvörum og er einnig bætt í ýmsar matvörur eins og morgunkorn, súkkulaði, álegg, kex, brauð, drykki, sem og í fæðubótarefni.

Þrjú viðmið eru nauðsynleg til að geta talað um „gerlafæðisáhrif“. Í fyrsta lagi mega magasýrur, meltingarensím og uppsog ekki hafa áhrif á gerlafæðið því það þarf að komast óáreitt alla leið niður í ristilinn. Í öðru lagi þarf þarmaflóran í ristlinum að geta nýtt gerlafæðið sem fæðu og þannig gerjað afurðina. Í þriðja lagi þarf gerlafæðið að örva vöxt og/eða virkni þeirra örvera sem eru í þarmaflórunni sem efla heilsu og vellíðan.

Í ristlinum veldur gerjun ólígófrúktósa fjölda lífeðlisfræðilegra áhrifa. Þessi áhrif fela í sér hraðari meltingu, s.s. heilbrigðari hægðir, fjölgun á Bífídóbakteríum í ristli, aukið uppsog næringarefna og lækkun blóðfitugilda. Rannsóknir sýna að með því að fjölga Bífídóbakteríum í ristli dregur úr ammoníakmagni í blóði, framleiðsla efnasambanda sem hindra hugsanlega sýkla eykst, sem og framleiðsla vítamína og meltingarensíma.

Gerlafæði gagnast aðallega meltingarveginum og þarmaflórunni. Hins vegar getur það einnig elft örveruflóru í munnholi, húð og þvagfærum.

Rannsóknir hafa sýnt að börn sem fá brjóstamjólk eru síður útsett fyrir sýkingum en börn sem fá þurrmjólk. Þarmaflóra ungbarna sem eru höfð á brjósti er frábrugðin þeim sem fá þurrmjólk, þar sem brjóstamjólkin inniheldur hærra hlutfall af Bífídóbakteríum fyrir tilstuðlan glýkóprótína og fásykra í brjóstamjólkinni. Brjóstagjöf ungabarna fyrstu sex mánuði ævinnar er ein af aðal áherslum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) til að fyrirbyggja niðurgang.

Gerlafæði hefur svipaða virkni og fásykrur í brjóstamjólk, þar sem það fjölgar Bífídóbakteríum og Laktóbasillus.

Hins vegar dregur úr magni Bífídóbaktería í þörmum með aldrinum. Það getur aukið líkur á sýkingum og bólgusjúkdómum í þörmum, sem er þekkt vandamál meðal aldraðra. Rannsóknir sýna að aukin inntaka á gerlafæði hefur áhrif á þarmaflóru hjá þessum einstaklingum og getur þannig dregið úr líkum á slíkum vandamálum.

Sjúklingar sem taka sýklalyf, sér í lagi breiðvirk sýklalyf, eru líklegri til að greinast með maga- og garnabólgu. Neysla matar og/eða vatns sem er mengað af sýklum og/eða eiturefnum getur leitt til bráðrar veiru-, maga- og garnabólgu. Talið er að Bífídóbakteríur og Laktóbasillus gegni mikilvægu hlutverki í að efla varnir meltingarvegarins, sérstaklega gegn sígellu, salmónellu, kampýlóbakter, kólígerlum, kóleru og klostridíum.

Meltingarvegurinn og þarmaflóran hefur ýmsa virkni sem varnar gegn innrás hugsanlegra sýkla. Þar má nefna stuttkeðju fitusýrur (e. short chain fatty acids – SCFAs), sem geta lækkað sýrstig (pH gildi) í þörmum, sem varnar því að sýklar nái að vaxa og dafna. Stuttkeðju fitusýrur hafa fengið mikla athygli hjá rannsakendum síðustu ár og þá sérstaklega bútýrat, própíónat og asetat sem eru langalgengastar. Ákveðnar bakteríur í þarmaflórunni framleiða stuttkeðju fitusýrur þegar þær nærast á gerlafæði. Það má því með sanni segja að gerlafæði gegnir mikilvægu hlutverki varðandi heilbrigði þarmaflórunnar og meltingarvegarins.

SAMANTEKT
Gerlafæði (e. prebiotics) er innihaldsefni í ákveðnum fæðutegundum eða fæðubótarefnum. Það gagnast meltingarfærum okkar og eflir almenna heilsu því gerlafæði stuðlar að ákveðnum breytingum á samsetningu og/eða virkni þarmaflórunnar. Gerlafæði samanstendur að mestu af fjölsykrum án sterkju og fásykrum sem stuðla að vexti hagstæðra baktería, svo sem Bífídóbaktería og Laktóbasilli. Gerlafæði er að finna í jurtafæðu og mjólkurvörum en því er einnig bætt í ýmsar matvörur eins og morgunkorn, súkkulaði, álegg, kex, brauð, drykki og fæðubótarefni. Gerlafæði gagnast fyrst og fremst meltingarveginum og þarmaflórunni, en getur einnig eflt örveruflóru í munnholi, húð og þvagfærum.