Vinsældir orkudrykkja hafa aukist mikið síðustu ár þar sem áhrif þeirra eru gjarnan „hressandi“ en geta jafnframt verið ávanabindandi. Þessir drykkir eru ekki svaladrykkir í venjulegum skilningi og eru í raun hannaðir og framleiddir fyrir fyrirfram ákveðinn markhóp með ákveðin áhrif í huga.
Allir orkudrykkir eiga það sameiginlegt að innihalda koffín. Reglulegri neyslu þeirra fylgir ákveðin áhætta. Þessir drykkir innihalda ekki meiri orku eða svokallaðar hitaeiningar. Flestir innihalda þeir sætuefni og koffín í óhóflegu magni en einnig önnur virk efni svo sem ginseng eða úrdrátt (e. extract) úr öðrum plöntum. Auk þess er algengt að þessir drykkir innihaldi vatnsleysanleg vítamín og amínósýrur.
Til eru ýmis form af sætuefnum. Aspartam er eitt form sætuefnis og er búið er til úr tveimur amínósýrum, aspartansýru og fenýlalaníni. Súkralósi er annað form sem unnið er úr súkrósa (borðsykur) þar sem þremur vetnis-súrefnishópum er skipt út fyrir klórfrumeindir. Aspartam er um 200 sinnum sætara en súkrósi en súkralósi er um 600 sinnum sætari en súkrósi. Rannsóknir hafa sýnt fram á áhrif aspartams og súkralósa á ýmsa heilsufarslega þætti.
Sætuefni og áhrif þeirra á þarmaflóru
Nýlegar rannsóknir sýna að aspartam og súkralósi geta riðlað samsetningu þarmaflórunnar. Þarmaflóran samanstendur af örverum sem gegna mikilvægu hlutverki varðandi meltingu og almenna heilsu. Þegar aspartam er brotið niður í líkamanum, myndast fenýlalanín, aspartínsýra og metanól sem geta haft skaðleg áhrif á þessar örverur. Það getur leitt til riðlunar á samsetningu þarmaflórunnar (e. dysbiosis). Riðluð samsetning þarmaflórunnar getur stuðlað að fjölda heilsufarsvandamála, allt frá meltingartruflunum til truflana í ónæmis- og taugakerfi líkamans.
Neysla á súkralósa getur haft slæm áhrif á þarmaflóru heilbrigðra einstaklinga. Rannsóknir sýna fram á neikvæð áhrif á blóðsykur, á insúlínnæmi og aukningu á útbreiddum bólgum í líkama. Súkralósi hefur fundist innan 24 tíma frá neyslu móður í brjóstamólk. Súkralósinn eykur líkur á að riðlun verði á samsetningu þarmaflóru barnsins.
Sætuefni og áhrif þeirra á þroskun taugakerfis
Rannsóknir á neyslu drykkja sem innihalda sætuefni á meðgöngu sýna aukna áhættu á einhverfu hjá afkvæmum.19 Rannsókn sem náði yfir 235 börn sem greind voru með einhverfurófsröskun borin saman við 121 heilbrigð viðmið sýndi að drengir mæðra sem neyttu að minnsta kosti eins drykks eða jafngildis ≥ 177 mg/dag af aspartami á meðgöngu voru í þrefalt líklegri til að greinast með einhverfu. Þessi tengsl voru þó ekki marktæk varðandi aukna áhættu á einhverfurófsgreiningu hjá stúlkum. Niðurstöðurnar sýna því aukna áhættu á einhverfu hjá drengjum mæðra sem neyta drykkja sem innihalda aspartam á meðgöngu.
Koffín og þarma-heila ás (e. gut-brain axis)
Koffín hefur margvísleg áhrif og verkar það fyrst og fremst örvandi á líkamann í gegnum miðtaugakerfið.1 Áhrif koffíns veldur útvíkkun æða, hjartsláttur verður örari og blóðflæði eykst til allra líffæra.20 Einnig hefur koffín áhrif á öndun, örvar meltingu og eykur þvagmyndun.
Neysla á koffíni í stórum skömmtum getur haft ýmis óæskileg áhrif á líkamlegt og andlegt ástand.
Þarma-heila ás er tvíátta samskiptakerfi sem tengir meltingarveginn við miðtaugakerfið. Koffín getur til dæmis aukið þarmahreyfingar og getur leitt til ýmissa truflana í meltingarvegi. Ennfremur getur of mikið koffín haft truflandi áhrif á mikilvæg samskipti milli þarma, heila og taugakerfis, svokallaðan þarma-heila ás. Truflunin á sér stað fyrir tilstuðlan áhrifa á framleiðslu og losun ýmissa mikilvægra taugaboðefna í meltingarveginum. Þessi truflun getur stuðlað að ákveðnum geðhrifum eins og til dæmis kvíða.
Í hnotskurn
Þrátt fyrir hressandi áhrifa orkudrykkja til skamms tíma eru langtímaáhrif þeirra skaðleg fyrir heilbrigði meltingarvegar og óæskileg á heila og taugakerfi. Ýmis aukaefni, sérstaklega sætuefni, geta riðlað jafnvægi mikilvægrar þarmaflóru í meltingarveginum sem síðan getur haft neikvæð áhrif á samskipti þarma, heila og taugakerfis.
Það er mikilvægt að vera meðvitaður um þessi áhrif og þá áhættu sem neysla orkudrykkja hefur.