Velkomin í fróðleikshornið

Flókið samband þarma og heila: áhrif á líðan
-

Undanfarin ár hafa rannsóknir sýnt æ betur fram á flókið samband þarma og heila. Þetta samband, sem við nefnum gjarnan örveru-þarma-heila ás (e. microbiota-gut-brain axis), gefur okkur nýja innsýn inn í hvernig líðan okkar verður meðal annars fyrir áhrifum örvera sem búa í þörmunum.

Hvað er örveru-þarma-heila ás?

Þessi ás vísar til tvíátta samskiptakerfis milli annar svegar örvera í þörmum og hins vegar heila og taugakerfis. Þetta flókna samskiptakerfi varðar í raun innkirtla-, ónæmis-, tauga- og efnaskiptaferla. Örverurnar, sem samanstanda mikið til af bakteríum, búa í þörmum. Þær eiga í nánu sambandi við líkama okkar með því að hafa áhrif á ýmsa lífeðlisfræðilega ferla, þar á meðal ferla sem eiga sér stað í miðtaugakerfi.

Hvernig virkar þetta allt saman?

Þarmar og heili eiga samskipti í gegnum vagus taugina, sem er gríðarlega mikil og flókin taugatenging og sú flóknasta hvað varðar samsetningu taugaþráða. Ákveðnar bakteríur í þörmunum geta framleitt taugaboðefni, eins og til dæmis serótónín og dópamín, sem gegna mikilvægu hlutverki varðandi líðan og hvernig við temprum skap.

Þarmabakteríurnar, of nefndar þarmaflóra, geta haft áhrif á ónæmiskerfið, losað efnasambönd sem verka á heilann eða aukið gegndræpi þarmanna. Þetta getur í kjölfarið kveikt bólgusvörun sem rannsóknir sýna að geti átt þátt í ýmsum geðröskunum eins og kvíðaröskun og þunglyndi.

Þarmarnir framleiða einnig ýmis hormón sem geta haft áhrif á heilastarfsemi.  Þarmaflóran getur síðan haft áhrif á framleiðslu þessara hormóna eins til dæmis á kortisól (streituhormón) og ghrelín (hungurhormón).

Ákveðnar örverur í neðrihluta meltingarvegar umbreyta fæðutrefjum í stuttkeðju fitusýrur (e. short chain fatty acids) eins og bútýrat, própíónat og asetat. Sýnt hefur verið fram á að þessar stuttkeðju fitusýrur hafi fjölmörg jákvæð áhrif á líkamsstarfssemina. Má þar nefna almenn bólgueyðandi áhrif, jákvæð áhrif á ónæmiskerfið, fyrirbyggja ofþyngd og offitu, draga úr líkum á sykursýki af týpu II, virka sem forvörn gegn krabbameini í ristli og endaþarmi, hafa jákvæð áhrif á hjarta- og æðakerfi, og hafa verndandi áhrif á lifrina og taugakerfið.

Af hverju skiptir þetta máli?

Áhrif örveru-þarma-heila ássins eru mikil. Rannsóknir hafa tengt breytingar á samsetningu þarmaflórunnar við ýmsar tauga- og geðraskanir, þar á meðal þunglyndi, kvíða, einhverfurófsröskun og jafnvel taugahrörnunarsjúkdóma eins og Parkinson.

Aukin þekking og skilningur á samskiptum milli þarma og heila hefur leitt til nýrra meðferðarúrræða varðandi ýmis einkenni og jafnvel sjúkdóma. Rannsóknir sýna að fjölbreytt þarmaflóra sem er samsett úr ríku magni af hagstæðum örverum hefur jákvæð áhrif á heilsu okkar, bæði líkamlega og andlega.

Við getum ávalt bætt þarmaflóruna með réttu mataræði sem inniheldur trefjaríkar afurðir eins og grænmeti og ávexti, grófmeti og ýmsar gerjaðar og sýrðar afurðir ásamt inntöku góðgerla og gerlafæðis.

© Copyright 2023 | All rights reserved | Jörth ehf