Velkomin í fróðleikshornið

Hvaða jarðveg ert þú að rækta innra með þér?
-

Sú fæða sem við veljum okkur daglega hefur áhrif á þarmaflóruna í meltingarvegi okkar. Þessi þarmaflóra nærist og dafnar á því fæði sem við látum ofan í okkur og val okkar á fæði ræður því hvaða örverur dafna best.

Við erum með örverur í meltingarveginum, frá munni og alla leið niður í ristil. Ristillinn hefur að geyma hlutfallslega langflestar bakteríur og eru Bacteroidetes, Firmicutes, Actinobacteria og Proteobacteria fjölmennastar.

Rannsóknir hafa sýnt að bakteríurnar hafa áhrif á efnaskiptin okkar og meðal annars ræður fjölbreytileiki þessara baktería hversu vel við meltum fæðuna og hvort hún gagnast okkur sem næring eða jafnvel gerir meira ógang en gang.

Það er að vissu leyti einstaklingsbundið hvaða orku eða hitaeiningar við erum að fá út úr matnum sem við borðum. Þarmaflóran spilar þar mikilvægt hlutverk ásamt því að viðhalda heilbrigði meltingarvegar á ýmsa vegu. Heilbrigði þarma er mikilvægt þar sem þeir stýra frásogi næringarefna og flæði annarra þátta út í líkama okkar. Ef þarmaveggir eru ekki nógu heilbrigðir hleypa þeir meira af bólgumyndandi þáttum og jafnvel bakteríum þar í gegn.

Í dag er vitað að örverur í meltingarvegi mannsins (þarmaflóran) hafa áhrif á líkamsstarfsemina á ýmsan hátt. Sem dæmi, þá ver þarmaflóran okkur gegn óæskilegum örverum og hefur margskonar áhrif á heila- og taugakerfið, þar með talið geðheilsu.

Rannsóknir á músamódelum hafa leitt í ljós að ójafnvægi í þramaflóru getur stuðlað að ofþyngd. Fjölgun á ákveðnum örverum, sem flokkast sem Firmicutes, hefur þau áhrif að mýs þyngjast hraðar en mýs sem hafa hærra hlutfall af öðrum örverum eins og Bacteroidetes. Firmicutes hafa þann eiginleika að ná meiri orku úr fæðunni og frásoga til að mynda hærra hlutfall fitu en örverur eins og Bacteroidetes. Þetta hefur verið rannsakað enn frekar á músum án þarmaflóru. Slíkar mýs eru með steríla/dauðhreinsaða görn og þeim síðan gefin þarmaflóra úr offeitum músum. Mýsnar verða offeitar án þess að gerðar hafi verið breytingar á fóðri. Þessar niðurstöður gefa til kynna að fjöldi innbyrgðra hitaeininga hefur takmörkuð áhrif á hvort við þyngjumst eða léttumst.

Rannsóknir sýna að trefjaríkar fæðutegundir eins og ávextir, grænmeti, hnetur, fræ, baunir og gróf korn hafa jákvæð áhrif á heilsufar okkar almennt. Umfram það mikilvæga hlutverk hafa trefjar áhrif á þarmaflóruna með því að örva vöxt hagstæðra örvera eins og Bacterotidetes. Þrátt fyrir þessa vitneskju er fæðið, sérstaklega á vesturlöndum, sífellt að verða innihaldsríkara af óhollri fitu, hvítum sykri og unnu korni eins og hvítu hveiti, á kostnað náttúrulegra trefja.

Mikilvægast af öllu er að neyta fjölbreyttrar og hollrar fæðu sem eflir vöxt hagstæðra örvera í þarmaflórunni og má þar sérstaklega nefna trefjaríkar fæðutegundir og gerjaðar afurðir á borð við súrkál, lifandi jógúrtgerla, kefir, kombucha og miso. Það er einnig mikilvægt að takmarka neyslu á unnum matvörum og þá sér í lagi hvítum sykri og fínu kornmeti ásamt því að leggja áherslu á villtar dýraafurðir þegar við veljum okkur fisk, kjöt og egg.

Það er ekki nóg að telja hitaeiningar eða bara forðast sykur. Skoða þarf hlutina í samhengi og að muna að enginn er eins. Það er mikilvægt að byggja upp góða þarmaflóru með réttu mataræði. Slíkt mataræði ætti að samanstanda sem mest af lítið unnu fæði og sem er án viðbættra aukaefna.

Með því að næra hagstæðar örverur í meltingarvegi okkar getum við haft áhrif á líkamsþyngd á árangursríkari hátt en einungis að telja hitaeiningar. Það sem við látum ofan í okkur verður að þeim jarðvegi sem við erum að rækta í þörmunum okkar. Við ættum að velta því fyrir okkur hvað það er sem við viljum byggja upp og rækta innra með okkur þegar við veljum okkur mat á diskinn.

 

 

 

 

© Copyright 2023 | All rights reserved | Jörth ehf