Heim / Vísindi / Góðgerlar

Góðgerlar

Góðgerlar (e. probiotics) eru örverur sem hafa jákvæð áhrif á heilsu manna með því að bæta og efla þarmaflóruna. Þessar örverur efla heilsu okkar þegar þær eru teknar inn í hæfilegu magni samkvæmt skilgreiningu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og Matvæla- og landbúnaðarstofnunar sameinuðu þjóðanna (FAO).

Rannsóknum á góðgerlum hefur fjölgað gríðarlega undanfarna áratugi. Um síðustu aldamót voru nokkur hundruð ritrýndar greinar útgefnar um efnið en nú eru þær taldar í tugum þúsunda.

Góðgerlar hafa lífeðlisfræðileg áhrif sem geta eflt meltingu og dregið úr ýmsum óþægindum í meltingarvegi. Þeir efla niðurbrot fæðunnar og uppsog næringarefna, styrkja ónæmiskerfið og viðhalda heilbrigðri þarmaflóru og heilbrigðum meltingarvegi. Þeir hafa verið rannsakaðir í tengslum við heilsu manna og ýmsa sjúkdóma.

Rannsóknir hafa sýnt að það er öruggt að taka inn góðgerla, það þolist vel og hentar til langs tíma sem viðbót við fæðu.

Mismunandi tegundir góðgerla geta haft mismunandi áhrif í meltingarveginum og á líkamann. Stöðugt fleiri rannsóknir hafa sýnt fram á hversu sértæk áhrif góðgerla hafa á heilsu fólks. Þeir geta til að mynda styrkt og hlúð að þarmaflórunni eftir inntöku sýklalyfja, auk þess að draga úr líkum á sýkingum þar sem þeir efla varnir líkamans. Rannsóknir hafa sömuleiðis sýnt að þeir draga úr einkennum og tíðni iðraólgu (e. IBS), halda óvinveittum sýklum í skefjum og draga úr viðloðun slæmra baktería í meltingarvegi. Þeir efla framleiðslu á mikilvægum efnum í slímhúð þarmanna sem kemur í veg fyrir að sýklar nái að hreiðra um sig, draga úr fjölgun sýkla og auka þar með hlutfall annarra hagstæðra góðgerla í þörmunum.

Góðgerla er að finna í ýmsum mat og bætiefnum. Helstu tegundir eru Bífídóbakteríur (e. Bifidobacteria) og Laktóbasillus sem samanstanda af fimm undirtegundum (e. Lactobacillus, Lacticaseibacillus, Lactiplantibacillus, Levilactobacillus, Ligilactobacillus).

Bífídóbakteríur eru fyrstu góðgerlarnir sem taka sér bólfestu í meltingarveginum. Sem dæmi má nefna Bifidobacterium bifidum, en hana fáum við frá móður í hefðbundinni fæðingu. B. bifidum ver okkur t.d. gegn Escherichia coli og Candida albicans sem geta valdið sýkingum ef ná að fjölga sér um of. Bífídóbakteríur hafa áhrif á bragðskyn okkar og fæðurval.

Laktóbasillus telur tugi ýmissa tegunda. Þekktastur er Lactobacillus acidophilus. Hann  hefur verið eins konar flaggskip mjólkuriðnaðarins þar sem hann finnst í sýrðum mjólkurafurðum. Laktóbasillus haga sér eins og Bífídóbakteríur, þ.e. hefur áhrif á bragðskyn okkar og fæðuval.

Árið 1910 var Lactobacillus bulgaricus fyrst notaður til að meðhöndla vægt þunglyndi. Það var Dr George Porter Phillips sem fjallaði um hvernig gerjun getur haft jákvæð áhrif á geðheilsu.

Dr Phillips gaf út grein í ritrýndu tímariti, British Journal of Psychiatry og fjallaði þar um hvernig gerillinn náði að draga úr upptöku eiturefna í meltingarvegi sjúklinga ásamt því að örva þarmahreyfingar með aukinni framleiðslu á serótóníni í þörmum. Það má segja að þarna hafi fyrsti „geðgerillinn“ (e. psychobiotics) verið uppgötvaður.

Ákveðnir gerlar eiga einnig þátt í gerjun matvæla. Slík gerjun á sér t.d stað við framleiðslu á sýrðum mjólkurvörur s.s. jógúrt, skyri og ostum, sýrðu grænmeti, brauði, gertei (e. kombucha), léttvínum og bjór. Gerlarnir hafa áhrif á bragð og áferð matvælanna. Þeir verja matvælin gegn skaðlegum örverum sem stuðla að skemmdum, með myndun mjólkursýru (e. lactic acid) og örverueyðandi efna (e. bacetiocins).

Laktóbasillus eru dæmi um bakteríur sem framleiða mjólkursýru og hafa heilsueflandi áhrif.

Gerjað grænmeti eins og súrkál inniheldur mikið magn af Laktóbasillus. Í gerjunarferlinu fjölga Laktóbasillus gerlarnir sér og við það eykst næringargildi fæðunnar. Gerlarnir framleiða t.d. ensím sem auðvelda meltingu ásamt örverueyðandi efni sem geta varið okkur gegn ýmsum kvillum. Mjólkursýran sem verður til er einstaklega jákvæð fyrir þarmaflóruna okkar og styrkir þarmaveggina ásamt því að fyrirbyggja aukið gegndræpi.

Mjólkursýrugerjun (e. lacto-fermentation) er ævagömul aðferð til að auka geymsluþol matvæla. Án mjólkursýrugerla gætum við t.d. ekki búið til súrdeigsbrauð, súrar gúrkur, súrkál, sojasósu, léttvín, bjór, osta, jógúrt, kaffi, te eða súkkulaði. Þessar afurðir eiga það allar sameiginlegt að vera heilsubætandi ef þeirra er neytt í hæfilegu magni.

Enn er verið að uppgötva nýjar tegundir góðgerla og flokkunarkerfi þeirra er í stöðugri þróun. Miklar framfarir hafa átt sér stað í tengslum við greiningu á örverum. Notast er við raðgreiningar á genum örveranna sem fer fram á rannsóknarstofum.

Vitneskja um svörun góðgerla við áreiti og umhverfi er sífellt að aukast ásamt þekkingu á hvernig samskipti milli örvera og hýsils eiga sér stað. Í dag vitum við að gen örveranna/góðgerlanna eiga samskipti við genin okkar og geta þessi samskipti verið mjög sérhæfð og markviss. Rannsóknir eiga eftir að leiða betur í ljós hvaða áhrif þessi samskipti hafa á heilsu okkar.

 

SAMANTEKT Góðgerlar eru örverur sem hafa jákvæð áhrif á heilsu manna. Gerlarnir hafa lífeðlisfræðileg áhrif sem geta eflt meltingu og dregið úr ýmsum óþægindum í meltingarvegi, efla niðurbrot fæðunnar og uppsog næringarefna, styrkja ónæmiskerfið og viðhalda heilbrigðri þarmaflóru og heilbrigðum meltingarvegi.

Stöðugt fleiri rannsóknir sýna fram á sértæk áhrif góðgerla sem er að finna í ýmsum mat og bætiefnum.

Bífídóbakteríur eru fyrstu góðgerlarnir sem taka sér bólfestu í meltingarveginum og Laktóbasillus telur tugi ýmissa tegunda og hagar sér eins og Bífídóbakteríur.

Gerjað grænmeti eins og súrkál inniheldur mikið magn af Laktóbasillus. Enn er verið að uppgötva nýjar tegundir góðgerla og flokkunarkerfi þeirra er í stöðugri þróun.

Vitneskja um svörun góðgerla við áreiti og umhverfi er sífellt að aukast ásamt þekkingu á hvernig samskipti milli örvera og hýsils eiga sér stað, þar með talið samskipti við genin okkar.