Velkomin í fróðleikshornið

Doktor í heilbrigðisvísindum
-

 

Það var stór stund þegar stofnandi Jörth, Birna Ásbjörnsdóttir varði doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Matvæla- og næringarfræðideild og Læknadeild Háskóla Íslands.

Ritgerð Dr. Birnu ber heitið Gegndræpi þarma, örveru-þarma-heila ás, atferli, og geðraskanir barna og unglinga. Ytri og eðlislæg stýring þarmatálmastarfsemi (e. Intestinal Permeability, Microbiota-Gut-Brain Axis, Behavior, and Mental Disorders in Children and Adolescents. Extrinsic and intrinsic regulation of intestinal barrier function).

Í rannsóknum sínum skoðaði Birna geðraskanir sem eru í senn flóknar og fjölþættar og má rekja til erfða-, umhverfis- og lífsstílsþátta. Geðraskanir hafa veruleg áhrif á lífsgæði og framtíðarhorfur hjá allt að fimmtungi barna og unglinga og eru ein helsta orsök langvinns heilsuleysis og örorku meðal ungmenna um allan heim.

Nýlegar rannsóknir hafa beint sjónum að þarmatálma, innsta lagi meltingarvegar sem gegnir tveimur andstæðum lykilhlutverkum; að viðhalda sértæku gegndræpi nauðsynlegra næringarefna frá þörmum yfir í blóðrás og á sama tíma að koma í veg fyrir innstreymi skaðlegra þátta frá meltingarvegi með stýrðu gegndræpi. Þarmatálmastarfsemi hefur áhrif á örveru-þarma-heila ás, samskiptanet sem tengir þarmaflóru, meltingarveg, taugakerfi og heila. Nýlegar rannsóknir benda til að riðlun í þessu samskiptaneti geti tengst geðröskunum.

Sem gestarannsakandi við Mucosal Immunology and Biology Research Center við Harvard Medical School í Boston rannsakaði Dr. Birna íslenska broddmjólk og áhrif hennar á þarmatálmastarfsemi og á örveru-þarma-heila ás.  Íslensk broddmjólk mjólkurkúa hefur ekki áður verið rannsökuð með slíkum aðferðum.  Þessar rannsóknir hafa nýst vel bæði við vöruþróun og nýsköpun á vegum Jörth.  

Tímamótunum var vel fagnað með fjölskyldu og vinum á sama tíma og horft var til nýrra tækifæra, frekari rannsókna og áframhaldandi nýsköpunar.  

 

© Copyright 2023 | All rights reserved | Jörth ehf